Geislar Hönnunarhús

Geislar Hönnunarhús


Fyrirtækið Geislar var stofnað árið 2012 af Pálma Einarssyni iðnhönnuði og er í 100% eigu hans og eiginkonu hans, Oddnýjar Önnu Björnsdóttur viðskiptafræðings.

Frá stofnun og þar til sumarið 2018 var það staðsett í Bolholti 4 í Reykjavík. Þann 1. júlí 2018 flutti fjölskyldan með fyrirtækið á lögbýlið Gautavík í Berufirði í Djúpavogshreppi.

Sérhæfingin
Pálmi sérhæfir sig í hönnun og framleiðslu á módel leikföngum og gjafavörum. Hann býður einnig upp á skurðarþjónustu og hönnunarráðgjöf fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

Oddný starfar í gegnum fyrirtækið sem ráðgjafi á sviði matvæla og landbúnaðar. Hún sér um sölumálin hjá Geislum og heldur utan um fjármálin. Fastland sér um allt bókhald og gerð ársreikninga.

Sérsniðnar lausnir
Pálmi leggur sig fram um að bjóða skjóta og sveigjanlega þjónustu á sanngjörnu verði. Hann hefur mikla möguleika á að sérsníða lausnir og sérhanna vörur fyrir viðskiptavini sína í litlu upplagi alveg niður í eitt stykki.

Á þeim tæpu sex árum sem fyrirtækið hefur starfað hefur hann þjónustað hundruði ánægðra viðskiptavina; bæði einstaklinga og fyrirtæki, stór og smá, um land allt.

Gjafavörur
Gjafavörurnar eru fallegar og hugvitslega hannaðar út frá aldagamalli hönnunarfræði, svokölluðu gullna sniði (e: Golden ratio).

Flestar eru þjóðlegar og tengjast dýralífi, náttúru og sögu landsins og svo er sérstök lína af jólavörum.

Vörurnar eru fjölbreyttar og ættu því flestir að finna eitthvað við sitt hæfi.

Módel leikföng
Módel leikföngin er skemmtilegt að líma saman og mála enda gaman að búa til sín eigin leikföng. Svo er það bæði skapandi og þroskandi og tilvalið samvinnuverkefni barna og forráðamanna þegar þau vilja eiga notalega gæðastund. Ekki spillir fyrir að þau þola alvöru leik.

Úrvalið er fjölbreytt. Frá einföldum leikföngum (5 pörtum) til stórra og flókinna (94 partar) og fyrir ólíka leiki. Veldu á milli sportbíla og trukka, flugvéla og flauga, dúkkuhúsa og húsgagna og fleiri tegunda.

Leikföngin eru límd saman með trélími og best er að mála þau með akrílmálningu. Þau má mála bæði fyrir og eftir samsetningu. Leiðbeiningar á íslensku og ensku fylgja með.

Umhverfisvænar og pakkast flatar
Vörurnar eru umhverfisvænar, að stærstum hluta úr birkikrossviði úr sjálfbærum skógum og er pakkað í lágmarks pappírsumbúðir. Þær eru allar hannaðar, framleiddar og þeim pakkað af Pálma á verkstæði Geisla í Gautavík.

Langflestar eru hannaðar á þann hátt að tveimur eða fleiri stykkjum er rennt saman eftir að þær hafa verið teknar úr umbúðunum. Kosturinn við það er að þá er hægt að pakka þeim í þunnar flatar pakkningar sem lágmarkar það pláss sem þær taka í póstsendingum, ferðatöskum og hillum verslana.

Þær eru því upplögð gjöf til fjölskyldu og vina sem búa í öðrum landshluta eða erlendis.